Íslandsmeistarinn rétti úr kútnum

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék á tveimur höggum yfir pari.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék á tveimur höggum yfir pari. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi, lék fyrsta hringinn á Ladies Classic Bon­ville-mót­inu sem fram fer í Ástr­al­íu á 74 höggum, tveimur höggum yfir pari. Valdís Þóra Jónsdóttir lék á fimm höggum yfir pari en þetta er fyrsta mót tímabilsins á Evrópumótaröðinni.

Guðrún, sem vann sér fastan keppnisrétt á röðinni í fyrsta skipti fyrir þetta tímabil, byrjaði illa og var komin fimm högg yfir parið eftir tíu holur. Hún lék átta síðustu holurnar á þremur höggum undir pari og rétti töluvert úr kútnum. Hún þarf að spila aðeins betur á öðrum hring til að fara í gegnum niðurskurðinn að honum loknum. 

Valdís lék fyrri níu holurnar á einu höggi yfir pari og var í ágætri stöðu fyrir tvær síðustu holurnar eftir fugl á 16. holu. Valdís fékk hins vegar skolla á 17. og 18. holu og féll töluvert niður listann. Hún þarf að spila annan hringinn mun betur til að komast áfram í gegnum niðurskurðinn. 

Lauren Stephenson frá Bandaríkjunum er í efsta sæti á sex höggum undir pari. Sex kylfingar koma þar á eftir á fimm höggum undir pari. 

Slæmur lokakafli skemmdi fyrir Valdísi.
Slæmur lokakafli skemmdi fyrir Valdísi.
mbl.is