Gamla ljósmyndin: Gullbjörninn á Akureyri

Morgunblaðið/Kristján Kristjánsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Sigursælasti kylfingur sögunnar, Jack Nicklaus frá Bandaríkjunum, er í hópi þeirra sem kalla má Íslandsvini. Hefur hann nokkrum sinnum komið til landsins og líklega ávallt í þeim tilgangi að renna fyrir lax. 

Hefur hann bæði heimsótt Golfklúbb Akureyar og Nesklúbbinn á Seltjarnarnesi í heimsóknum sínum til Íslands síðustu áratugina. 

Morgunblaðið hefur marg sinnis í gegnum árin sagt frá fréttir af því að Nicklaus væri á Íslandi í laxveiði. Árið 1994 greindi blaðið til dæmis frá því að Nicklaus og Uffe Ellemann Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, hefðu veitt á sama tíma í Laxá í Aðaldal. 

Sjö árum fyrr eða árið 1987 hafði Morgunblaðið þetta eftir Nicklaus þegar hann hafði verið í veið í sömu á: „Við veiddum 8 laxa, ég og dóttir mín, ég fékk fimm og hún þrjá. Ég er með fjölskylduna með mér í þetta sinn og það er alveg dásamlegt að koma hingað og veiða. Maður nýtur náttúrunnar og næðisins og hvílist mjög vel."

Meðfylgjandi mynd birtist í Morgunblaðinu hinn 4. ágúst 2005 og er tekinn af Kristjáni Kristjánssyni á Akureyri. Nicklaus var þá staddur í golfskálanum á Jaðarsvelli á Akureyri en Nicklaus var þá orðinn heiðursfélagi Golfklúbbs Akureyrar. Á myndinni skoðar Gullbjörninni myndaspyrpu af heimsókn sinni á Jaðarsvell árið 1992 en myndasyrpan hangir uppi á vegg í húsakynnum GA. Hann hafði þá verið í stangveiði í Fljótunum ásamt tveimur sonum sínum og þremur vinum samkvæmt frásögn blaðsins. 

Jack Nicklaus sigraði átján sinnum á risamótunum í golfi á keppnisferli sínum, oftar en nokkur annar til þessa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert