Komin að þolmörkum

Valdís Þóra Jónsdóttir hefur ákveðið að taka sér frí frá …
Valdís Þóra Jónsdóttir hefur ákveðið að taka sér frí frá keppni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir keppir ekkert meira á þessu ári á meðan hún jafnar sig af álagsmeiðslum sem hún varð fyrir í sumar. Valdís, 30 ára, er einn fremsti kylfingur meðal kvenna á Íslandi og hefur orðið Íslandsmeistari í þrígang, 2009 í Grafarholti, 2012 á Hellu og 2017 á Hvaleyri. Undanfarin ár hefur hún einnig keppt á Evrópumótaröð kvenna, þeirri sterkustu í álfunni.

Valdís hefur ekki keppt síðan í júní og gat m.a. ekki tekið þátt á Íslandsmótinu í ár, sem fór fram í Mosfellsbæ í síðasta mánuði. Morgunblaðið sló á þráðinn til Valdísar og tók stöðuna á afrekskylfingnum. „Læknirinn vill meina að þetta séu miklar krónískar bólgur og festa í liðum, fyrir neðan neðsta rifbeinið, vinstra megin í hryggnum. Þetta veldur því að það er ótrúlega sárt að slá boltann,“ sagði Valdís Þóra og bætir við að hún hafi verið að spila golf meidd í nokkur ár, hins vegar hafi hún í sumar komist yfir þolmörkin.

Vil geta gengið upprétt síðar

„Ég er þegar með þrjár hryggskekkjur og eydda smáliði á milli herðablaðanna hægra megin sem hafa verið að angra mig. Ég fann út úr því hvernig ég gæti lifað með því og spilað þannig að sá sársauki væri viðráðanlegur. En svo kemur þetta þar að auki í lok apríl. Þetta hefur undið upp á sig og ég spilaði mjög verkjuð í sumar, var að vakna á næturnar vegna sársauka og var bara komin yfir þolmörk.

Ég var byrjuð að gretta mig í hverri sveiflu af sársauka og maður verður líka að hugsa um næstu ár. Ég vil geta gengið upprétt þegar ég er 35 ára og þess vegna tókum við þessa ákvörðun. Ég vil komast í gott stand áður en álagið byrjar aftur. Ef ég ætla að komast inn á Ólympíuleikana þarf ég að vera 100%.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert