Guðrún og Guðmundur best í golfinu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Ljósmynd/GSÍ

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur hafa verið valin kylfingar ársins 2020 af Golfsambandi Íslands.

Guðmundur Ágúst er valinn annað árið í röð en hann fékk þessa viðurkenningu í fyrsta sinn á síðasta ári. Guðrún Brá er valin í fyrsta skipti.

Umsögn GSÍ um Guðrúnu Brá:

Guðrún Brá er fædd árið 1994 og hefur alla tíð leikið fyrir Golfklúbbinn Keili í Hafnarfirði. Hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018 er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni – sem er sterkasta atvinnumótaröð í kvennaflokki í Evrópu. Guðrún Brá er fjórða konan frá Íslandi sem tryggir sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Ólöf María Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa einnig verið með keppnisétt á LET.

Á árinu 2020 lék Guðrún Brá á alls 11 atvinnumótum. Hún keppti á þremur mótum á LET Access mótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröðin í Evrópu í kvennaflokki. Besti árangur hennar á LET Access var 14. sæti. Á sjálfri LET Evrópumótaröðinni lék hún á alls 8 mótum og besti árangur hennar var 39. sæti. Guðrún Brá verður með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á næsta ári. Hún sigraði á Íslandsmótinu í golfi 2020 í þriðja sinn í röð og alls hefur hún landað þremur Íslandsmeistaratitlum. Aðeins fimm konur hafa sigrað á Íslandsmótinu í golfi þrjú ár í röð og er Guðrún Brá ein þeirra.

Á heimslistanum hefur Guðrún Brá farið upp um tæplega 200 sæti á þessu ári en hún er í sæti nr. 861.

Umsögn GSÍ um Guðmund Ágúst:

Guðmundur Ágúst er fæddur árið 1991 og er í Golfklúbbi Reykjavíkur. Frá árinu 2017 hefur hann verið atvinnukylfingur. Á árinu 2020 var Guðmundur Ágúst með keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challenge Tour en aðeins fimm íslenskir kylfingar hafa öðlast keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur Hafþórsson, Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson.

Guðmundur Ágúst endaði í 46. sæti á stigalistanum sem er næst besti árangur hjá íslensku atvinnukylfingi á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour).

Besti árangur hans var á móti sem fram fór á Norður-Írlandi þar sem að Guðmundur Ágúst endaði í 5. sæti. Guðmundur Ágúst hefur farið hratt upp heimslistann á undanförnum misserum. Frá árinu 2017 hefur hann farið upp um 1.500 sæti en hann var í sæti nr. 510 á heimslistanum í þessari viku.

mbl.is