Axel og Berglind leiða eftir annan keppnisdag

Frá öðrum keppnisdegi Leirumótsins í dag.
Frá öðrum keppnisdegi Leirumótsins í dag. Ljósmynd/GS

Öðrum keppnisdegi af þremur er lokið í Leirumótinu. Í karlaflokki leiðir Axel Bóasson úr Golfklúbbnum Keili og í kvennaflokki leiðir Berglind Björnsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur.

Axel lék á 70 höggum í dag og er þá samtals á 136 höggum, átta undir pari. Í öðru sæti er Andri Már Óskarsson á 139 höggum, þremur höggum á eftir Axel. Í þriðja sæti er Sigurður Bjarki Blumenstein á samtals 142 höggum.

Besta skor dagsins var 69 högg en það voru Birgir Björn Magnússon og Hlynur Bergsson sem náðu því.

Berglind leiðir með átta höggum eftir að hafa spilað annan hringinn á 73 höggum, eða einu höggi yfir pari. Hún er samtals á þremur höggum yfir pari. Öðru sætinu deila þær Saga Traustadóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Andrea Ýr Ásmundsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar á 11 höggum yfir pari. Höggi á eftir þeim er svo Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss.

GS-ingurinn Fjóla Margrét Viðarsdóttir er yngsti keppandinn í kvennaflokki en hún er einungis 14 ára gömul. Um er að ræða hennar fyrsta mót í stigamóti á meðal þeirra bestu og er hún í fimmta sæti eftir annan daginn, sem verður að teljast frábær árangur. 

Keppnisdagurinn í dag markaðist af roki og rigningu sem gerði keppendum erfitt fyrir. Á morgun er spáð mun minni vindi og því má búast við því að aðstæður verði ekki jafn krefjandi og í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert