Ólafur fagnaði Evrópumeistaratitlinum með stórleik

Leikmenn Ciudad Real fagna sigrinum í dag.
Leikmenn Ciudad Real fagna sigrinum í dag. Reuters

Ólafur Stefánsson átti stórleik í dag þegar Ciudad Real tryggði sér Evrópumeistaratitilinn í handbolta með ótrúlegum 31:25- sigri á útivelli gegn Kiel í Þýskalandi í síðari leik liðanna. Kiel vann fyrri leikinn á Spáni 29:27 og var róðurinn því þungur fyrir Ciudad Real. Ólafur skoraði 12 mörk og var íslenski landsliðsmaðurinn óstöðvandi í sóknarleiknum.

Þetta er í annað sinn sem Ólafur sigrar í Meistaradeild Evrópu með Ciudad Real en hann hefur einnig orðið Evrópumeistari með Magdeburg í Þýskalandi.

Ólafur var markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar en hann skoraði 96 mörk en annar í röðinni var Kiril Lazarov úr Zagreb. 

Arpad Sterbik markvörður Ciudad Real var frábær í leiknum, og varði hann alls 24 skti, og lagði hann grunninn að sigrinum ásamt Ólafi. Undir lok leiksins sauð upp úr á milli leikmanna og var gert hlé á leiknum á meðan. Leikmenn slógust og áhorfendur tóku einnig þátt í þeim slagsmálum.  

David Davis og Siarhei Rutenka léku ekki með Ciudad Real í dag vegna meiðsla líkt og Petar Metlicic. Línumaðurinn sterki Rolando Urios lék ekki margar mínútur í úrslitaleiknum í dag en hann hefur glímt við meiðsli að undanförnu.

Ólafur Stefánsson fagnar hér Evrópumeistaratitlinum með Magdeburg árið 2002.
Ólafur Stefánsson fagnar hér Evrópumeistaratitlinum með Magdeburg árið 2002. Jens Wolf
Marcus Ahlm leikmaður Kiel í baráttunni gegn Didier Dinhart og ...
Marcus Ahlm leikmaður Kiel í baráttunni gegn Didier Dinhart og Ólafi Stefánssyni í leiknum í dag. Reuters
mbl.is