Valsmenn Íslandsmeistarar 2017

Valur tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitil karla í handbolta með sigri á FH í oddaleik í Kaplakrika, 27:20. Staðan í hálfleik var 11:9 FH í vil, en Valsmenn sneru dæminu sér í vil í seinni hálfleiknum og unnu einvígið 3:2.

Valsmenn eru sigursælastir allra í handbolta karla en þetta var í 22. sinn sem félagið verður Íslandsmeistari. Tíu ár voru liðin síðan Valur varð síðast Íslandsmeistari.

Ekki er á neinn hallað þó Sigurður Ingiberg Ólafsson, markvörður Vals, sé tekinn út fyrir sviga eftir oddaleikinn í dag. Hann átti algjörlega ótrúlega innkomu í seinni hálfleik og varði samtals 15 skot ef allt er talið. 

FH hafði haft undirtökin í fyrri hálfleiknum en það breyttist með innkomu Sigurðar sem nýtti sér góðan varnarleik Vals, en varði líka oft úr dauðafærum. Eftir að FH hafði jafnað metin í 15:15 þegar 20 mínútur voru til leiksloka þá lokaði Sigurður hreinlega markinu, og á meðan gekk sóknarleikur Vals vel, þar sem Ólafur Ægir Ólafsson hóf að raða inn mörkum, og liðið komst í 20:15.

Ásbjörn Friðriksson skoraði heldur betur langþráð mark fyrir FH þegar sjö mínútur voru eftir og minnkaði muninn í 20:16, en heimamönnum tókst aldrei að hleypa spennu í leikinn á lokakaflanum.

Athygli vekur að allir leikir einvígisins unnust á útivelli, og að spennan var aldrei mikil á lokamínútunum. Valsmenn, sem enduðu í 7. sæti deildarkeppninnar, eru Íslandsmeistarar og deildarmeistarar FH verða að gera sér silfurverðlaun að góðu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn innan skamms og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

FH 20:27 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið Valur er Íslandsmeistari 2017!
mbl.is