Markmaðurinn skoraði sex mörk

Áki Egilsnes, númer 24, átti góðan leik.
Áki Egilsnes, númer 24, átti góðan leik. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

KA minnkaði í kvöld forskot granna sinna á Akureyri niður í eitt stig í Grill 66-deild karla í handbolta með öruggum 33:16-sigri á Hvíta riddaranum, en leikið var á Akureyri. Staðan í hálfleik var 16:8 og var leikurinn aldrei spennandi, en Hvíti riddarinn er í botnsætinu, án stiga.

Áki Egilsnes skoraði níu mörk fyrir KA og Dagur Gautason gerði átta mörk. Agnar Rúnarsson og Davíð Svansson skoruðu sex mörk fyrir Hvíta riddarann, en Davíð Svansson hefur í gegnum tíðina verið einn besti markmaður efstu deildar. Hann nýtur sín greinilega í öðru hlutverki. 

Í Vestmannaeyjum mættust ungmennalið ÍBV og Vals og höfðu heimamenn betur, 29:22. Dagur Arnarson skoraði átta mörk fyrir ÍBV og Tumi Rúnarsson gerði sex fyrir Val. Valsliðið er í 6. sæti deildarinnar með 15 stig og Eyjamenn sæti neðar með 13 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert