Akureyri stigi frá úrvalsdeildinni

Hafþór Vignisson skoraði 7 mörk fyrir Akureyri í kvöld.
Hafþór Vignisson skoraði 7 mörk fyrir Akureyri í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lið Akureyrar er einu stigi frá því að vinna sér aftur sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik eftir þægilegan sigur á Hvíta riddaranum, 39:22, í Mosfellsbæ í kvöld.

Staðan í hálfleik var 22:9 fyrir Akureyringa. Hafþór Már Vignisson var markahæstur þeirra með 7 mörk en Arnór Þorri Þorsteinsson, Friðrik Svavarsson, Brynjar Hólm Grétarsson og Ihor Kopyshynskyi gerðu 4 mörk hver. Agnar Ingi Rúnarsson skoraði 6 mörk fyrir Hvíta riddarann og Davíð Hlíðdal Svansson, betur þekktur sem markvörður, gerði 4 mörk.

Akureyri er með 30 stig og á einn leik eftir en KA er með 26 stig og á tvo leiki eftir. Annað Akureyrarliðanna fer beint upp en hitt fer í umspil með HK, Þrótti og Mílunni um eitt sæti í úrvalsdeild.

Bæði norðanliðin eiga eftir heimaleik gegn HK. KA og HK mætast á laugardaginn og vinni KA-menn eiga þeir áfram möguleika á efsta sætinu en tapi þeir stigi er Akureyri komin upp.

Föstudaginn 23. mars er síðan lokaumferðin. Þá tekur Akureyri á móti HK, og nægir jafntefli, hafi KA unnið HK. KA-menn eiga heimaleik við ungmennalið Vals. Ef KA og Akureyri enda bæði með 30 stig fer KA upp vegna betri útkomu í innbyrðis viðureignum liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert