Tækifæri til að feta í fótspor föður síns

Alexander Örn Júlíusson hefur í fyrsta sinn verið valinn í …
Alexander Örn Júlíusson hefur í fyrsta sinn verið valinn í æfingahóp A-landsliðsins í handknattleik. mbl.is/Golli

„Ég fæ núna gott tækifæri til þess að feta örlítið í fótspor kallsins sem lék nærri 300 landsleiki,“ sagði Alexander Örn Júlíusson, handknattleiksmaður úr Val glaður í bragði, eftir að tilkynnt var í gær að hann væri í fyrsta sinn valinn í A-landsliðið í handknattleik.

Alexander Örn 22 ára gamall sonur Júlíusar Jónassonar sem lék 288 landsleiki frá miðjum níunda áratugum og til loka árs 1999 og þótti einn traustasti liðsmaður landsliðsins á þeim tíma.  Þess má einnig til fróðleiks geta að kærasta Alexanders Arnar er ein fremst frjálsíþróttakona landsins, grindahlauparinn úr FH, Arna Stefaníu Guðmundsdóttir, sem nýverið varð Norðurlandameistari í 400 m hlaupi innanhúss.

„Það væri heiður að  tækifæri til þess að fá að spreyta sig í mótsleik með landsliðinu en hvort af því verður ræðst af hvernig ég stend mig á æfingunum sem hefjast á öðrum degi páska,“ sagði  Alexander Örn sem hefur báða fætur á jörðinni.

Alexander Örn hefur alla tíð tíð leikið með Val og hefur vakið athygli fyrir að vera harður í horn að taka í varnarleiknum, líkt og faðir hans á sínum tíma en þeir feðgar eru áþekkir á vellinum. Alexander Örn lék á sínum tíma með yngri landsliðum Íslands. Þrátt fyrir að hafa ekki verið kallaður inn í A-landsliðið fyrr en nú þá hafa síðustu ár verið viðburðarrík hjá pilti á handknattleiksvellinum og hann vaxið jafnt og þétt, ekki síst af reynslu með ævintýri Valsliðsins í Áskorendakeppni Evrópu á síðasta vetri.

„Á síðasta vetri unnum við Valsmenn Íslands- og bikarmeistaratitilinn og tókum þátt í miklu ævintýri í Evrópukeppninni. Það var skemmtilegt og lærdómsríkt keppnistímabil. Og nú hef ég verið valinn í æfingahóp A-landsliðsins. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta um þessar mundir,“ sagði Alexander Örn sem hlakkar til að mæta á fyrstu landsliðsæfinguna.

„Það er fínt fyrsta skref að vera valinn í æfingahóp A-landsliðsins síðan á eftir að koma í ljós hvort ég fæ að fljóta með átján manna hópnum sem fer á mótið í Noregi. Ég er bara spenntur að fá að komast inn á æfingar, láta til mína og láta vita af því að maður á heima í þessum hópi, bæði fyrir leikmönnum og þjálfurum,“ sagði Alexander sem virðist hafa nokkuð skýrt hlutverk í varnarleik landsliðsins, að minnsta kosti á þeim æfingum sem verða fyrir Noregsferðina. Alexander fyrst og fremst valinn sem varnarmaður, að sögn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, sem sagði í samtali við Morgunblaðið að Alexander Örn hafði ákveðna eiginleika sem varnarmaður sem hann hrifist af.

„Ég geri mér nokkuð vel grein fyrir mínu hlutverki í framliggjandi sex núll vörn sem Guðmundur er þekktur fyrir. Við látum sóknarleikinn bíða í bili,“ sagði Alexander Örn og glotti við tönn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert