Veisla hjá KA-mönnum

KA-menn fagna í kvöld.
KA-menn fagna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA vann sér sæti í Olís-deild karla í kvöld þegar liðið lagði HK í þriðja leik liðanna um sæti meðal þeirra bestu. KA vann alla leikina en þrjá sigra þurfti til að tryggja úrvalsdeildarsætið.

KA, sem áður var stórveldi í karlaboltanum, verður með í efstu deild í fyrsta skipti frá árinu 2006. Félagið varð Íslandsmeistari í tvígang og bikarmeistari þrisvar sinnum á gullaldarárum KA.

Nú hafa öll Akureyrarliðin þrjú; Akureyri, KA/Þór og KA farið upp í efstu deild á þessu vori.

Lið KA byrjaði leikinn af miklum krafti og kom sér í 5:0 áður en HK náði áttum. Munurinn hélst allt fram að hálfleik en þá stóð 18:12 fyrir KA.

Á fyrstu mínútum seinni hálfleiks vissu HK-ingar varla hvort þeir væru að koma eða fara og KA-menn rúlluðu yfir þá með endalausum hraðaupphlaupum. Fyrr en varði var munurinn kominn í tíu mörk, 25:15. KA-menn héldu svo sjó allt til loka og unnu afar sannfærandi sigur, 37:25.

Búast má við að lið KA taki miklum breytingum fyrir átökin í úrvalsdeildinni næsta haust. Margir gamlir stríðshestar voru dregnir á flot í vetur og óvíst er að þeir geti gefið sig alla í slaginn við þá stóru á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert