Ótrúlega stoltur af strákunum

Sverre Jakobsson þjálfari Akureyrar ræðir við sína menn á varamannabekknum …
Sverre Jakobsson þjálfari Akureyrar ræðir við sína menn á varamannabekknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Fyrirliði Akureyri Handboltafélags er Friðrik Svavarsson. Hann er uppalinn í KA og var í eldlínunni gegn KA í kvöld þegar Akureyrarliðin tvö mættust í fyrsta skipti í efstu deild handboltans.

KA vann leikinn 28:27 eftir að hafa haft gott forskot lungann úr leiknum. Akureyringar áttu góðan lokasprett og komust þrívegis yfir í leiknum. KA skoraði tvö síðustu mörkin og fögnuðu þeir gulklæddu því sigri.

Friðrik. Þið bjóðið upp á einn svakalegasta leik í KA-heimilinu í áraraðir. Var ekki sárt að tapa þessum leik eftir að hafa snúið honum á lokakaflanum?

„Auðvitað var sárt að hafa ekki náð neinu út úr leiknum. Það var fyrri hálfleikurinn sem varð okkur að falli. Við spiluðum ekki okkar leik í byrjun og vorum ekki að gera það sem lagt var upp með. Við náttúrlega uppskárum eftir því. Svo ræddum við saman í hálfleik og settum fram ákveðin áhersluatriði. Róðurinn var erfiður en þetta skilaði sér þegar á leið og það sýnir karakterinn í liðinu að hafa náð að jafna og komast yfir eftir að hafa verið sex mörkum undir þegar kortér var eftir af leiknum. Ég er mjög ánægður með það, ekki spurning. Við lögðum allt í þetta með mikilli baráttu en því miður þá tókst okkur ekki að klára dæmið.“

Það hefði verið ruddalega flott að vinna leikinn með þessum góða spretti á lokamínútunum.

„Það er alveg rétt. KA-menn voru í brasi og við mættum þeim af meiri hörku í seinni hálfleik. Þá vorum við að spila nær því sem er okkar vörn. Við misstum mann af velli með rautt spjald og þurftum að stokka aðeins upp. Við fundum eitthvað sem virkaði í seinni hálfleik. Ég er ótrúlega stoltur af strákunum þrátt fyrir úrslitin. Þessi leikur á eftir að hjálpa okkur í framhaldinu og sérstaklega þessi kafli okkar í restina. En bara þessi leikur, að spila hér fyrir fullu húsi. Það er ekki hægt að byrja mótið með betri leik til að koma mönnum í gang. Við mætum trítilóðir í næsta leik gegn Selfyssingum og ætlum að fá stig á Selfossi,“ sagði helmassaður Friðrik að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert