Æsispennandi skemmtun á Selfossi

Selfoss og Stjarnan eigast við í kvöld.
Selfoss og Stjarnan eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Selfoss og Stjarnan skildu jöfn í stórskemmtilegum leik í 2. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld, 34:34.

Stjarnan byrjaði betur í leiknum og skoraði þrjú fyrstu mörkin en þá kviknaði á Selfyssingum sem náðu að snúa leiknum sér í vil og staðan var 9:6 um miðjan fyrri hálfleikinn. Selfoss hélt forystunni út fyrri hálfleikinn þar sem Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fór mikinn í sókninni. Garðbæingar áttu líka góða spretti þar sem Þórhildur Gunnarsdóttir var drjúg í markaskorun og Guðrún Ósk Maríasdóttir átti nokkrar góðar vörslur.

Staðan var 17:15 í leikhléi en þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik hafði Stjarnan jafnað, 21:21. Þarna náði Stjarnan 8:2 áhlaupi og breytti stöðunni í 23:26. Þórey Anna Ásgeirdóttir var frábær í seinni hálfleiknum í sókninni hjá Stjörnunni og Selfyssingar réðu ekkert við hana.

Stjarnan tók broddinn úr sóknarleik Selfoss með því að taka Hrafnhildi Hönnu úr umferð allan seinni hálfleikinn og það virtist ætla að skila þeim sigri. En Örn Þrastarson Selfossþjálfari átti ás uppi í erminni. Hann færði Hönnu út í hægra hornið og setti Kristrúnu Steinþórsdóttur í skyttustöðuna. Kristrún svaraði kallinu með því að skora þrjú mörk á stuttum tíma og Selfoss náði að minnka muninn niður í eitt mark.

Lokakaflinn var æsispennandi og reyndi á taugar leikmanna. Stjarnan missti boltann þegar 32 sekúndur voru eftir og Hrafnhildur Hanna jafnaði metin 34:34 þegar þrjár sekúndur voru eftir á klukkunni. Niðurstaðan sanngjarnt jafntefli.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 12 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 8 og Carmen Palamariu 6. Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 11 skot.

Hjá Stjörnunni var Þórey Anna Ásgeirsdóttir markahæst með 10/3 mörk, Elísabet Gunnarsdóttir og Þórhildur Gunnarsdóttir skoruðu báðar 6 mörk. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 15/1 skot í marki Stjörnunnar og stöðvaði Selfyssinga oft á mikilvægum augnablikum.

Selfoss 34:34 Stjarnan opna loka
60. mín. Leik lokið Basti var sammála mérum að það væru þrjár sekúndur eftir. Það var hinsvegar bara ein sekúnda eftir á klukkunni þegar tíminn var stöðvaður. Of lítill tími fyrir Stjörnuna. Fríkast frá miðju, beint í vegginn.
mbl.is