„Gaman að taka nokkra bolta í hávörn“

Magnús Stefánsson er afar sterkur varnarmaður.
Magnús Stefánsson er afar sterkur varnarmaður. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, gekk sáttur af velli í dag eftir leik Akureyrar og ÍBV í Olís-deildinni í handbolta. Magnús varði sex skot í seinni hálfleik í varnarmúr Eyjamanna sem sigldu fram úr Akureyringum á lokamínútunum. Leiknum lauk 29:22 eftir að Eyjamenn höfðu skorað sex síðustu mörkin.

Magnús er Eyfirðingur og æfði lengi blak og handbolta með KA, og síðar Akureyri, áður en hann flutti til Vestmannaeyja.

Það þarf ekki að spyrja þig Magnús. Finnst þér ekki alltaf jafngott að koma norður?

„Hér er best að vera. Það er kannski einn staður betri á Norðurlandi en það er KA-heimilið. Ég get ekki beðið eftir því að spila þar seinna í vetur og það eru forréttindi að fá að gera það.“

Fyrst svo er af hverju ertu þá ekki að spila fyrir KA?

„Ja, þannig er bara lífið. Það leiðir okkur á mismunandi brautir. Taugarnar hingað norður eru sterkar en ég hef ekki yfir neinu að kvarta heima í Eyjum. Þar er líka frábært að vera.“

Snúum okkur nú aðeins að leiknum í dag. Þið höfðuð þetta bara með góðum endaspretti eftir mjög jafna og spennandi viðureign.

„Akureyringar er með mjög flott lið og það var ekkert auðvelt að eiga við þá í dag. Þeir eru með marga unga stráka í bland við reyndari menn og eru með hörkuskyttur. Ég tel að þeir eigi talsvert inni, rétt eins og við. Þrátt fyrir að hafa unnið í dag þá erum við ekkert sáttir með okkar leik. Við duttum dálítið niður eftir góða kafla og þetta hefði getað farið illa. Þetta þarf að vera heilsteyptara hjá okkur og það má vinna í því fyrir næstu leiki. Við eigum það til að verða kærulausir ef staðan er orðin góð. Akureyringar voru að spila fína vörn lengstum og við töpuðum fullmörgum boltum. Þeir komu alltaf til baka eftir góðan sprett hjá okkur, nema þarna í lokin. Þá náðum við að loka vörninni og Kolbeinn varði allt sem kom á markið.“

Það var svakalegt að sjá blokkirnar hjá þér á lokakaflanum. Þér hefur nú ekki leiðst að verja öll þessi skot og rifja upp blakkunnáttuna í leiðinni.

„Ég er nú ekki viss um að skipulagið hjá Akureyri hafi verið að fara upp á eina tveggja metra manninn í vörninni hjá okkur og skjóta yfir hann. En það var gaman að fá að rifja upp gamla takta frá því í blakinu í gamla daga og taka nokkra bolta í hávörn,“ sagði vígreifur Magnús að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert