Arnar nefbrotinn en HM ekki í hættu

Arnar Freyr Arnarsson.
Arnar Freyr Arnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Freyr Arnarsson, línumaður íslenska landsliðsins í handknattleik, fór ekki með landsliðinu til Noregs í dag þar sem það spilar vináttuleiki fyrir HM sem hefst eftir níu daga. Hann nefbrotnaði á milli jóla og nýárs.

Arnar Freyr fékk högg með liði sínu Kristianstad í Svíþjóð á föstudag þar sem hann nefbrotnaði og hlaut skurð á augabrún. Hann segir að þátttaka sín á HM sé ekki í hættu þrátt fyrir þetta.

„Það var bara tekin ákvörðun hjá þjálfarateyminu að ég yrði eftir hér heima. HM er ekki í hættu,“ sagði Arnar Freyr við RÚV  í dag, en hann mun æfa með andlitsgrímu í það minnsta fram að HM.

Ísland tekur þátt í fjögurra þjóða æfingamóti í Noregi um helgina og mætir þar heimamönnum, Brasilíu og Hollandi. Liðið kemur aftur hingað til lands til lokaundirbúnings eftir það, en fyrsti leikur á HM er 11. janúar gegn Króatíu í München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert