Óðinn og félagar með fullt hús

Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar eru með fullt hús.
Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar eru með fullt hús. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar hans í danska handboltaliðinu GOG eru með fullt hús stiga í D-riðli EHF-bikarsins í handbolta eftir 34:26-heimasigur á spænska liðinu Granollers í dag. 

Óðinn skoraði þrjú mörk úr hægra horninu fyrir GOG. Liðið er með fjögur stig eftir tvo leiki, eins og lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel. GOG fer einmitt í heimsókn til Kiel næstkomandi laugardag í einvígi toppliðanna. 

Vignir Svavarsson mætti einnig spænskum andstæðingi í dag. Danska liðið Holstebro fór þá í heimsókn til Cuenca en varð að gera sér að góðu að tapa 26:24. Vignir skoraði tvö mörk fyrir Hostebro, sem er með tvö stig í C-riðli, eins og Cuenca. Porto er í toppsætinu með fjögur stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert