Tvær frá Selfossi til Fram

Kristrún Steinþórsdóttir og Katrín Ósk Magnúsdóttir, nýir leikmenn handknattleiksliðs Fram.
Kristrún Steinþórsdóttir og Katrín Ósk Magnúsdóttir, nýir leikmenn handknattleiksliðs Fram. Ljósmynd/Fram

Kvennaliði Fram í handknattleik hefur borist liðsstyrkur í tveimur handknattleikskonum frá Selfossi. Um er að ræða þær Kristrúnu Steinþórsdóttur og Katrínu Ósk Magnúsdóttur. 

Kristrún er skytta og hefur leikið allar stöður fyrir utan hjá Selfossi ásamt því að vera öflugur varnarmaður. Hún er uppalin á Selfossi og hefur spilað með meistaraflokki Selfoss frá því veturinn 2012 – 2013. Síðastliðinn vetur spilaði Kristrún 21 leik með liðinu og skoraði í þeim 42 mörk. 

Katrín Ósk er markmaður  og hefur spilað með meistaraflokki Selfoss frá tímabilinu 2013 – 2014.  Ef frá er talinn veturinn 2017 – 2018 þegar hún var í Danmörku. Katrín lék allan leiki Selfoss-liðsins í Olís-deildinni á nýliðnu tímabili. 

Selfoss féll úr úrvalsdeildinni í vor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert