Svartfellingar unnu lykilleik í Kumamoto

Spánverjar hafa unnið alla þrjá leiki sína en Silvia Navarro …
Spánverjar hafa unnið alla þrjá leiki sína en Silvia Navarro markvörður, til hægri, er fyrirliði þeirra. Ljósmynd/IHF

Spánn, Svartfjallaland og Rússland stefna hraðbyri í milliriðla heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik en þessi þrjú lið unnu öll í morgun sinn þriðja leik af þremur á mótinu í Kumamoto og eru komin með 6 stig í sínum riðlum.

Stórleikur dagsins til þessa var í C-riðlinum þar sem Svartfellingar unnu Ungverja, 25:24, í hörkuleik. Jovanka Radicevic skoraði 8 mörk fyrir Svartfellinga og Milena Raicevic 7 en Nadine Schatzl skoraði 7 mörk fyrir Ungverja.

Þá er Suður-Kórea í góðri stöðu í B-riðlinum eftir sigur á Brasilíu, 33:27, og er komin með 5 stig. Þýskaland er með 4 stig, Danmörk 3, Frakkland 1, Brasilía 1 og Ástralía ekkert en þarna er gríðarleg barátta um að komast áfram. Heimsmeistarar Frakka eiga léttan leik gegn Áströlum í dag en Danir og Þjóðverjar mætast í algjörum lykilleik.

Alexandrina Cabral skoraði 8 mörk fyrir Spánverja sem sigruðu Senegal 29:20 eftir 15:7 í hálfleik.

Hollendingar skoruðu 51 mark gegn Kúbu sem er hæsta skorið í keppninni til þessa. Angela Malestein skoraði 11 mörk fyrir Holland og Lois Abbingh 10.

Úrslitin í morgun:

A-riðill:
Holland - Kúba 51:23

B-riðill:
Suður-Kórea - Brasilía 33:27

C-riðill:
Ungverjaland - Svartfjallaland 24:25
Spánn - Senegal 29:20

D-riðill:
Rússland - Kongó 34:13

mbl.is