ÍR keyrði yfir KA í Breiðholti

Hafþór Már Vignisson átti stórleik fyrir Breiðhyltinga og skoraði tíu …
Hafþór Már Vignisson átti stórleik fyrir Breiðhyltinga og skoraði tíu mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafþór Már Magnússon átti stórleik fyrir ÍR þegar liðið vann tólf marka stórsigur gegn KA í Austurbergi í Breiðholti í fimmtándu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 34:22-sigri ÍR-inga en Hafþór Már gerði sér lítið fyrir og skoraði 10 mörk í leiknum.

ÍR-ingar náðu yfirhöndinni snemma leiks og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 18:14. Akureyringum tókst aldrei að halda í við ÍR-inga í síðari hálfleik og Breiðholtsliðið gjörsamlega keyrði yfir KA-menn á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Sigurður Ingiberg Ólafsson átti einnig góðan leik í marki ÍR, varði 12 skot og var með 35% markvörslu. Patrekur Stefánsson var markahæstur Akureyringa með fimm mörk og Jovan Kukobat í marki KA var með sex skot varin.

ÍR fer með sigrinum í 20 stig og er áfram í fjórða sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Valsmönnum. KA er í níunda sætinu með 11 stig, jafn mörg stig og Stjarnan sem er í áttunda sætinu, og sex stigum frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert