Jákvæður leikur en tapaðist á smáatriðum

Erlingur Richardsson og Kristinn Guðmundsson eru þjálfarar ÍBV.
Erlingur Richardsson og Kristinn Guðmundsson eru þjálfarar ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, var ósáttur við að fá ekkert út úr leik liðsins gegn Val í gærkvöld en liðin spiluðu skemmtilegan leik í Vestmannaeyjum, þegar Olísdeild karla fór af stað aftur eftir hlé. Lokatölur 25:26 í frábærum handboltaleik.

„Leikurinn sem slíkur var nokkuð jákvæður, það er ekki spurning, við erum að spila við besta liðið í deildinni akkúrat núna að mínu mati. Við erum óheppnir að ná ekki stigi í kvöld, það sem er neikvætt í þessu er það hve staðir og slakir við erum sóknarlega í seinni hálfleik. Þar missum við fjögurra marka forystu frá okkur, sem hefði verið ljúft að geta haldið inn í seinni hálfleikinn. Við glutrum þeirri forystu niður og þurftum að fara að elta þá, við tók heljarinnar æsingur í seinni hálfleik sem varð að keppni í smáatriðum,“ sagði Kristinn en það má segja að Eyjamenn hafi tapað á smáatriðunum, þá sérstaklega á lokasekúndunni, þegar þeir töldu sig hafa jafnað.

„Þetta var helst kaflinn í upphafi seinni hálfleiks sóknarlega, sem við þurfum aðeins að rýna í, en eins og við bjuggumst við fyrir leik þá dettur þetta á smáatriðum, algjörum smáatriðum. Þetta er skák, það eru sveiflur í þessu, þetta snýst um að notfæra sér mómentið, við viljum auðvitað meina að boltinn hafi verið inni þarna undir lokin, þangað til að við sjáum þetta öðruvísi. Það er hrikalegt örugglega að þurfa að taka þessa ákvörðun en vonandi er hún bara rétt.“

Var það baráttan sem var fjarri góðu gamni í upphafi síðari hálfleiks?

„Þetta var kannski hugarfarið að vera að verja eitthvað. Við þurfum að ræða það, við erum bestir þegar við erum sókndjarfir í öllu því sem við erum að gera, það er karakter okkar liðs. Við þurfum að halda vel í það, við vorum að hökta sóknarlega í fyrri hálfleik eftir að við komumst 10:6 yfir. Við breyttum þá aðeins og fengum skemmtilega vídd með Ívari Loga [Styrmissyni] og hann skilaði virkilega góðu starfi undir lok síðari hálfleiks, það er mjög jákvætt að sjá ungan mann gera það. Það er ýmislegt jákvætt sem við hirðum út úr þessu, þó að það sé drullusvekkjandi að tapa þessu þá munum við halda áfram að vera einbeittir í því sem við erum að gera.“

Markvarslan hjá Eyjamönnum var nokkuð góð í fyrri hálfleik en líkt og vörnin datt hún niður í síðari hálfleik.

„Þetta hangir mikið saman, en það má ekkert leyna því að hann var að redda okkur nokkrum sinnum í fyrri hálfleik. Þetta verður alltaf umræða um hvort við eigum að skipta Birni inn á en Petar varði oftast bolta þegar við vorum að pæla í því. Þetta er oft eins og að draga spil úr hattinum.“

Grétar Þór Eyþórsson var kominn á skýrslu í kvöld en spilaði ekkert, Sigurbergur Sveinsson og Theodór Sigurbjörnsson voru þó fjarri góðu gamni, hvenær má eiga von á þeim?

„Það er ekki langt í að við sjáum Grétar á parketinu, en það er mikilvægt fyrir okkur að fá svona karakter inn í hópinn líka og inn á æfingar, hann er með rosalega flott viðhorf og þekkir þetta. Hann er mikilvægur póstur í andlegu hliðinni í þessu liði fyrir utan það að vera klókur inni á vellinum, hann hefur líka reynst vel þegar upp koma erfiðar stöður. Við náum vonandi að toga það út úr honum, gamla karlinum. Hina tvo er lengra í, það er meiri óvissa hvenær og hversu mikið þeir verða með.“

Prógrammið hjá Eyjamönnum á næstunni er strembið, leikir gegn Selfossi, FH, Aftureldingu og Haukum eru næstir á dagskrá, Kristinn segir að það hljóti að vera spennandi að fara inn í svona prógramm sem leikmaður.

„Það hlýtur að vera ótrúlega gaman að vera leikmaður að fara inn í þessa leiki, að spila á móti frábærum liðum í hverri einustu umferð hlýtur að vera ástæðan fyrir því að leikmenn eru að þessu. Það verður líka gaman fyrir okkur þjálfara að fara inn í þennan undirbúning og það eru hlutir sem við getum virkilega hlakkað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert