Tvö Íslendingalið mögulegir mótherjar Vals

Valsmenn eru ríkjandi deildarmeistarar.
Valsmenn eru ríkjandi deildarmeistarar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur raðað niður liðunum sem taka þátt í 1. umferð Evrópudeildarinnar í styrkleikaflokka og svæði. Taka deildarmeistarar Vals þátt í keppninni, sem býður upp á þá nýjung að liðum er skipt upp eftir svæðum til að lækka ferðakostnað félaga. 

Valur er í neðri styrkleikaflokki á svæði tvö og koma því fimm andstæðingar til greina fyrir deildarmeistarana og þar af tvö Íslendingalið. 

Valsmenn geta mætt Holstebro frá Danmörku þar sem landsliðshornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson leikur, en hann skipti yfir til félagsins frá GOG í sumar.

Þá getur Valur mætt þýska liðinu Melsungen. Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar Melsungen og Arnar Freyr Arnarsson er nýkominn til félagsins frá GOG í Danmörku. 

Hin þrjú liðin sem Valur getur mætt eru Arendal frá Noregi, Azoty-Pulawy frá Póllandi og Malmö frá Svíþjóð. Verður dregið þriðjudaginn 28. júlí næstkomandi. Fara fyrstu leikirnir fram í lok ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert