Hafnfirðingar stjórnuðu ferðinni gegn Fram

Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði fimm mörk fyrir FH-inga í kvöld.
Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði fimm mörk fyrir FH-inga í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ásbjörn Friðriksson var drjúgur fyrir FH þegar liðið fékk Fram í heimsókn í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Kaplakrika í Hafnarfirði í 3. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með sex marka sigri FH-inga, 28:22, en Ásbjörn skoraði sex mörk í leiknum, þar af fjögur af vítalínunni.

Jafnfræði var með liðunum til að byrja með og Fram komst í 4:2-þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum. FH-ingar voru fljótir að jafna, sigu hægt og rólega fram úr Frömurum, og FH leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 15:10.

Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn ágætlega, minnkuðu muninn í tvö mörk, 15:13, en lengra komust þeir ekki. FH var með yfirhöndina allan tímann og héldu Frömurum vel frá sér það sem eftir lifði leiks.

Leonharð Þorgeir Harðarson, Ágúst Birgisson og Einar Örn Sindrason skoruðu fimm mörk hver fyrir FH og þá varði Phil Döhler þrettán skot í markinu.

Vilhelm Poulsen skoraði sjö mörk fyrir Framara og Andri Már Rúnarsson fimm en Lárus Helgi Ólafsson varði frábærlega í markinu og var með fimmtán skot varin.

FH fer með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar og er nú með 4 stig en Fram er með 1 stig í ellefta og næst neðsta sæti deildarinnar.

mbl.is