Varði þrjú víti í einum leik

Aron Rafn Eðvarðsson var í stuði.
Aron Rafn Eðvarðsson var í stuði. mbl.is/Árni Sæberg

Aron Rafn Eðvarðsson var í miklu stuði fyrir Bietigheim er liðið lagði Hüttenberg af velli á útivelli, 22:20, í þýsku B-deildinni í handbolta í dag. Varði Aron 10 skot og þar af þrjú vítaköst. Hannes Jón Jónsson þjálfar liðið. 

Guðjón Valur Sigurðsson varð að játa sig sigraðan í fyrsta skipti sem þjálfari í deildinni því lærisveinar hans í Gummersbach töpuðu fyrir Hamm á útivelli 25:27. Elliði Snær Viðarsson skoraði ekki fyrir Gummersbach. 

Bietigheim er með tvö stig eftir tvo leiki og Gummerbach með fjögur eftir þrjá leiki.

Í 1. deildinni gerðu Melsungen og Minden jafntefli í Melsungen, 24:24. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark fyrir Melsungen, en Guðmundur Guðmundsson þjálfar liðið. Melsungen er í áttunda sæti með fimm stig eftir fjóra leiki. 

Í B-deild kvenna skoraði Díana Dögg Magnúsdóttir þrjú mörk fyrir Sachsen Zwickau sem tapaði naumlega á útivelli gegn Solingen, 24:25. Liðið er í fjórða sæti með sex stig eftir fjóra leiki. 

Í Sviss eru lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Kadetten í toppsæti efstu deildar eftir 35:31-útisigur á Bern Muri. Er Kadetten með 14 stig, með einu stigi meira en Kriens í öðru sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert