Gott væri að spila báða leikina á sama stað

Katrín Vilhjálmsdóttir í færi.
Katrín Vilhjálmsdóttir í færi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Akureyrarliðið KA/Þór tekur í fyrsta skipti þátt í Evrópukeppni kvenna í handknattleik í vetur og nú er ljóst að liðið leikur við Jomi Salerno frá Ítalíu í 3. umferð Evrópubikarsins, en dregið var í höfuðstöðvum EHF, Handknattleikssambands Evrópu, í gær. Ítalska liðið var dregið á undan og verður fyrri leikurinn því ytra 14. eða 15. nóvember og síðari leikurinn á Akureyri viku síðar, svo lengi sem liðin semja ekki sín á milli um að leika báða leiki á sama stað.

Jomi Salerno hefur ekki riðið feitum hesti frá Evrópukeppnum síðustu ár, þrátt fyrir að hafa fagnað Ítalíumeistaratitli sjö sinnum á síðustu tíu árum. Vann liðið síðast Evrópueinvígi gegn ÍBV árið 2014 í EHF-bikarnum, samanlagt 61:49. Þremur árum síðar mætti liðið Haukum í Áskorendabikarnum og höfðu Haukar þá betur samanlagt 50:41. Martha Hermannsdóttir, reyndasti leikmaður KA/Þórs, lék með Haukum í því einvígi.

„Ég hef ekki kynnt mér þetta lið enn þá, en mér sýndist hún Martha [Hermannsdóttir] hafa einu sinni mætt því í Evrópukeppni. Þegar maður hugsar um handboltann á Ítalíu þá hugsar maður ekki endilega að þetta lið sé mikið sterkara en við, án þess að ég viti nokkuð um það,“ sagði Katrín Vilhjálmsdóttir liðsfélagi Mörthu hjá KA/Þór í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir forráðamenn félagsins hafa rætt um að leika báða leiki á sama stað. Væri það væntanlega skynsamlegast í ljósi þeirrar stöðu sem er í Evrópu um þessar mundir. „Því hefur verið velt um hvernig sé best að gera þetta, án þess að það hafi komið einhver niðurstaða í það. Það væri gott að geta spilað báða leikina á sama stað og enn betra ef það er hægt að hafa áhorfendur,“ sagði Katrín.

Sjáðu viðtalið við Katrínu í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert