Hákon Daði skoraði 15 mörk í stórsigri

Hákon Daði Styrmisson skoraði 15 mörk í dag.
Hákon Daði Styrmisson skoraði 15 mörk í dag.

Hákon Daði Styrmisson átti stórleik er ÍBV vann 32:23-stórsigur á ÍR í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Vestmannaeyjum í dag. Hákon skoraði tæplega helming marka heimamanna, 15 talsins úr aðeins 16 skotum.

ÍR-ingar eru á botni deildarinnar og enn án stiga eftir 12 umferðir en leikurinn í dag var jafn til að byrja með. Eyjamenn voru einu til tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik en höfðu svo þriggja marka forystu í hálfleik, 16:13. Á eftir Hákoni voru þeir Dagur Arnarsson og Arnór Viðarsson báðir með fimm mörk. Þá var Petar Jokanovic drjúgur í markinu, varði 17 af 39 skotum.

Hjá ÍR skoraði Gunnar Valdimar Johnsen sex mörk og þeir Andri Heimir Friðriksson og Ólafur Malmquist gerðu báðir fjögur. ÍBV er nú með 13 stig og fer upp fyrir Stjörnuna og Aftureldingu í 7. sæti sem eiga þó leik til góða.

mbl.is