Landsliðskona snýr aftur í Safamýrina

Hafdís Renötudóttir, til hægri, er gengin til liðs við Framara …
Hafdís Renötudóttir, til hægri, er gengin til liðs við Framara á nýjan leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleiksmarkvörðurinn Hafdís Renötudóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við uppeldisfélag sitt Fram. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Hafdís, sem er 23 ára gömul, þekkir vel til í Safamýrinni eftir að hafa leikið með liðinu hér heima frá 2013 til 2016 og sömuleiðis tímabilið 2019 til 2020 þar sem hún gat lítið beitt sér vegna höfuðmeiðsla.

Hún gekk til liðs við Stjörnuna frá Fram árið 2016 þar sem hún lék í eitt tímabil áður en hún hélt út í atvinnumennsku þar sem hún lék með bæði SönderjyskE og Sola.

Þá gekk hún til liðs við Lugi í Svíþjóð á síðasta ári en fékk heilahristing á nýjan leik eftir tvær vikur með liðinu og snéri aftur heim til Íslands.

„Það er ljóst að þetta er mikil styrking fyrir annars sterkt lið okkar í Fram. Velkomin heim Hafdís!“ segir meðal annars í fréttatilkynningu Framara.

Hafdís á að baki 26 A-landsleiki fyrir Ísland en hún lék sinn fyrsta landsleik árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert