Gríðarlegur liðsstyrkur fyrir ÍR

Kristján Orri Jóhannsson og Sigurður Ingiberg Ólafsson leika með ÍR …
Kristján Orri Jóhannsson og Sigurður Ingiberg Ólafsson leika með ÍR á næstu leiktíð. Ljósmynd/ÍR handbolti

Handknattleiksdeild ÍR tilkynnti í dag um gríðarlegan liðsstyrk því þeir Kristján Orri Jóhannsson og Sigurður Ingiberg Ólafsson munu leika með liðinu á komandi tímabili.

ÍR-ingar féllu úr deild þeirra bestu á síðustu leiktíð og leika því í 1. deildinni á næstkomandi tímabili. Bæði Kristján og Sigurður Ingiberg áttu stóran þátt í því að Kría vann sér inn sæti í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, en að lokum hætti Kría við að senda lið til leiks í vetur.

Kristján og Sigurður Ingiberg léku báðir með ÍR áður en þeir skiptu yfir í Kríu. Kristján átti magnað tímabil með Kríu á síðustu leiktíð og skoraði 178 mörk í 18 leikjum í 1. deildinni. Árið 2020 skoraði hann 102 mörk í 20 leikjum í efstu deild.

Markvörðurinn Sigurður Ingiberg hefur verið áberandi í efstu deild á síðust árum og leikið með FH, Stjörnunni og Val, en hann varð Íslandsmeistari með Valsmönnum árið 2017.

mbl.is