Glæsileg endurkoma KA/Þórs í Evrópubikarnum

Anna Þyrí Halldórsdóttir sækir að marki Gjorche Skopje í kvöld.
Anna Þyrí Halldórsdóttir sækir að marki Gjorche Skopje í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA/Þór og Gorche Petrov frá Norður-Makedóníu skildu jöfn, 20:20, í fyrri leik liðanna í 2. umferð Evrópubikars kvenna í handbolta í kvöld. Báðir leikir einvígisins verða spilaðir í KA-heimilinu.

Því er allt hnífjafnt fyrir seinni leikinn sem fer fram annað kvöld, en leikurinn í kvöld var útileikur KA/Þórs og verður seinni leikurinn heimaleikur norðankvenna.

Gorche Petrov byrjaði betur og var með 11:7-forskot í hálfleik. Þrátt fyrir að vera með ungt og óreynt lið neitaði KA/Þór að gefast upp og með glæsilegum seinni hálfleik tókst liðinu að jafna.

Lydía Gunnþórsdóttir skoraði jöfnunarmark KA/Þórs þegar um 30 sekúndur voru eftir en hún var næstmarkahæst í liðnu með fjögur mörk, eins og Unnur Ómarsdóttir. Hildur Lilja Jónsdóttir skoraði fimm mörk og Matea Lonac varði 18 skot í marki KA/Þórs, þar af tvö víti.

Mörk KA/Þórs: Hildur Lilja Jónsdóttir 5, Unnur Ómarsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 3, Nathália Baliana 3, Telma Lísa Elmarsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 18.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert