Veran í Eyjum stórkostleg frá A-Ö

Rúnar Kárason kátur í leikslok.
Rúnar Kárason kátur í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Rúnar Kárason lék sinn síðasta leik fyrir ÍBV í kvöld en hann fór fyrir liðinu sem varð Íslandsmeistari í handknattleik í þriðja skiptið í sögunni og það fyrsta á heimavelli. Rúnar var markahæsti leikmaður ÍBV í öllum fimm leikjum úrslitaeinvígisins og bætti met yfir flest mörk skoruð í úrslitaeinvígi. Eyjamenn unnu leikinn 25:23 og það er óhætt að segja að Rúnar hafi stimplað sig út með stæl.

„Þetta er geggjað, það er svo mikið að gerast að ég næ ekki utan um þetta. Ég verð nokkra daga að vinna úr þessu, þetta er kvikmynd sem ég hefði ekki getað óskað mér betri endi á. Þetta er búið að vera stórkostlegt frá A-Ö vera mín hér í Eyjum og ég gat ekki óskað mér betri endi.“

Af hverju unnu Eyjamenn þennan leik? „Á vinnuseminni, við gerðum gjörsamlega allt sem til þurfti varnarlega og sóknarlega til þess að vinna leikinn. Þetta var iðnaður, ekkert sérstaklega fallegt held ég, þetta small svo okkar megin.“

Rúnar, lengst til vinstri, kampakátur með Íslandsmeistarabikarinn.
Rúnar, lengst til vinstri, kampakátur með Íslandsmeistarabikarinn. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Rúnar vildi ekki meina að leikmenn ÍBV hafi verið komnir í eitthvað kæruleysi eftir leik tvö.

„Mér finnst ekki, ég held að þetta hafi meira verið smá blokkering eða menn í smá fangelsi með hausinn á sér. Við náðum að brjótast út úr því, vorum búnir að taka út skituna og vorum frjálsir í þessum leik. Við náðum að njóta leiksins í dag.“

Eyjamenn hófu leikinn af miklum krafti sem gaf þeim aukna orku. „Þetta helst í hendur með það hvernig við nálguðumst leikinn, við byrjuðum þetta af blússandi krafti og gáfum engin færi á okkur. Þeir börðust eins og ljón og ég tek hatt minn ofan fyrir Haukamönnum sem skiluðu frábæru einvígi, þeir höfðu ekki það sem til þurfti í dag og við erum ógeðslega ánægðir með að ná að græja þetta.“

Eyjamenn gáfu ekki mörg færi á sér sagði Rúnar en Eyjamenn gáfu vel af sér til stuðningsmanna sinna í dag. Hann segir samspil stuðningsmanna og leikmanna hafa verið gott.

„Það var ólýsanlegt, þetta er algjörlega einstakt og það eru algjör forréttindi að hafa fengið að upplifa það að vera Eyjamegin í lífinu. Ég hafði ekki trú á því að við gætum tapað þrisvar í röð fyrir Haukum, ef ég á að vera alveg hreinskilinn, ég var heldur ekki jafn sigurviss og ég var fyrir leik 3. Ég hafði alltaf trú á þessu,“ sagði Rúnar aðspurður hvort hann hafi verið orðinn stressaður eftir þessa tvo sigurleiki Haukamanna.

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Rúnar setti met í dag, flest mörk í úrslitaeinvígi en hann skoraði tíu mörk í dag og kom sér því þremur mörkum fram úr Róberti Duranona sem átti metið er hann skoraði 44 mörk í einvígi KA og Vals 1996.

„Ég er með algjöra skotræpu og sendi aldrei boltann, er það ekki bara svoleiðis? Ég fékk að taka vítin og það hjálpaði,“ sagði Rúnar að lokum en hann fékk að byrja á vítapunktinum í dag eftir að ÍBV klúðraði fjórum vítum í síðasta leik.

„Þetta var hörkuleikur og við sýndum gríðarlega mikinn styrk með því að ná að halda þessu út, við höldum forystunni jafnt og þétt allan leikinn.“

Hvenær vissi Rúnar að hann yrði Íslandsmeistari? „Þegar það voru þrjár mínútur eftir, þá byrjaði ég að tárast.“

mbl.is