Aldrei jafn margir fengið krampa

Takk fyrir leikinn, Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson að …
Takk fyrir leikinn, Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson að leikslokum mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Varnarleikurinn virkaði vel í fyrri hálfleik og menn voru tilbúnir. Það þurfti á móti liði eins og þessu. Þetta eru miklir íþróttamenn með mikla hlaupagetu og þeir eru góðir með boltann. Þetta mun bíða okkar á móti Nígeríu," sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karlaliðsins í fótbolta eftir 2:2-jafntefli á móti Gana á Laugardalsvelli í kvöld. 

Staðan í hálfleik var 2:0, Íslandi í vil en Gana jafnaði í síðari hálfleik. Heimir segir íslensku leikmennina hafa verið þreytta í síðari hálfleik. 

„Menn fóru að þreytast í seinni hálfleik og því náðum við ekki að tengja saman vörn og sókn. Það hafa aldrei jafn margir fengið krampa og beðið um að fara út af. Sumir þurftu að fá mínútur þó það hafði verið skynsamlegt að gefa þeim frí. Við erum búnir að vera með erfiðar æfingar og sumir leikmenn voru stífir."

Heimir var ánægður með innkomu Hólmars Arnar Eyjólfssonar sem spilaði allan leikinn í hægri bakverðinum. Hann segir Gylfa Þór Sigurðsson hafa getað spilað meira, en það hefði ekki endilega verið skynsamlegt. Gylfi spilaði 67 mínútur í leiknum. 

„Hólmar tók stöðuna og skilaði þessu vel miðað við hvað hann hefur spilað fáa leiki í þessari stöðu. Hann spilaði þessa stöðu í Þýskalandi og hann er klókur leikmaður á margan hátt. Gylfi hefði getað spila meira en það var ekki skynsamlegt eins og staðan er."

Barist um vinstri bakvarðarstöðuna

Ari Freyr Skúlason spilaði allan leikinn í dag en Hörður Björgvin Magnússon hefur verið fyrsti kostur í vinstri bakvarðarstöðuna í keppnisleikjum upp á síðkastið. 

„Þetta eru tveir góðir leikmenn. Ari er búinn að spila fantavel með Lokeren síðustu mánuði. Hann er í toppstandi og hann þurfti ekki aukalega að vinna í sínu formi."

Heimir segir leikmenn íslenska liðsins hlakka til að fara til Rússlands.

„Það er búið að vera skrítið umhverfi í kringum okkur núna. Það er búið að vera mikið af hlutum sem venjulega er ekki, meðal annars athygli annars staðar frá. Það verður þægilegt og rólegra að koma til Rússlands. Við verðum komnir í verndað umhverfi og við erum ánægðir með að það er komið að þessum tímapunkti. Við höfum notið þess að vera á Íslandi en við hlökkum til að fara út," sagði Heimir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert