Messi á allan okkar stuðning

Messi á æfingu með argentínska landsliðinu í gær.
Messi á æfingu með argentínska landsliðinu í gær. AFP

Lionel Messi hefur stuðning frá öllum liðsfélögum sínum og þeir verða í hans liði, segir argentínski landsliðsmaðurinn Paulo Dybala.

Messi átti ekki sinn besta dag í 1:1 jafnteflinu gegn Íslendingum í Moskvu um síðustu helgi þar sem honum brást bogalistin af vítapunktinum. Hannes Þór Halldórsson sá við honum og varði spyrnu hans glæsilega.

Messi átti ellefu misheppnaðar skottilraunir sem er það mesta sem leikmaður hefur átt í úrslitakeppni HM í einum leik síðan árið 1970.

„Vitaskuld styðjum við hann allir, það er óþarfi að minna á það. Að klúðra vítaspyrnu þýðir ekkert því hann er sá fyrsti sem vill bæta fyrir það og snúa blaðinu við. Og hann veit að hann getur treyst á okkur núna meira en nokkru sinni áður. Við erum hér til að hjálpa honum hvenær sem hann þarf á okkur að halda,“ sagði Dybala við fréttamenn í gær.

Argentínumenn eru að búa sig undir gríðarlega mikilvægan leik gegn Króötum sem fram fer annað kvöld en á föstudaginn mætast Ísland og Nígería í sama riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert