Ekki tími til að ræða um framtíðina

Cristiano Ronaldo súr á svip eftir tapið gegn Úrúgvæ í …
Cristiano Ronaldo súr á svip eftir tapið gegn Úrúgvæ í gær. AFP

„Nú er ekki tíminn til að ræða um framtíðina, hvorki hjá þjálfaranum né leikmönnum,“ sagði Cristiano Ronaldo, fyrirliði Evrópumeistara Portúgala, eftir að liðið féll úr leik í 16-liða úrslitunum á HM í knattspyrnu í Rússlandi í gær.

Ronaldo og félagar töpuðu 2:1 fyrir Úrúgvæum þar sem Ronaldo náði sér ekki á strik og draumur hans um að hampa heimsmeistaratitlinum í fyrsta skipti varð að engu. Ronaldo verður 38 ára gamall þegar heimsmeistaramótið verður næst haldið í Katar 2022 og óvíst er hvort hann fái aftur tækifæri til að gera atlögu að heimsmeistaratitlinum.

Hvorki Ronaldo né Lionel Messi, tveir bestu fótboltamenn veraldar, hafa náð að skora í útsláttarkeppni HM en báðir féllu úr leik í gær en þeir voru að keppa á sínu fjórða heimsmeistaramóti.

„Ég er sannfærður um að Potúgal mun halda áfram að vera eitt besta lið í heimi. Við erum með ungt og efnilegt lið,“ sagði Ronaldo, sem skoraði fjögur mörk á HM, öll í riðlakeppninni.

mbl.is