Frakkar leika til úrslita á HM

Frakkarnir fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Frakkarnir fögnuðu vel og innilega í leikslok. AFP

Frakkland og Belgía mættust í undanúrslitum heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í dag í Pétursborg en leiknum lauk með 1:0-sigri franska liðsins. Belgar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það voru það Frakkarnir sem fengu bestu færi hálfleiksins. Hvorugu liðinu tókst hins vegar að skora og staðan því markalaus í hálfleik.

Samuel Umtiti kom svo Frökkum yfir með skalla eftir hornspyrnu í upphafi síðari hálfleiks. Belgarnir reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna metin en tókst aldrei að ógna marki Frakkanna af einhverju viti og lokatölur því 1:0 fyrir Frakka sem spila til úrslita gegn annaðhvort Englandi eða Króatíu í Moskvu á sunnudaginn.

Belgar munu hins vegar spila um bronsið í Pétursborg, 14. júlí næstkomandi en það kemur í ljós á morgun hverjir andstæðingar liðsins verða þegar Króatía og England mætast í Moskvu.

Frakkland 1:0 Belgía opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið í Pétursborg! Frakkar fara áfram í úrslitaleikinn eftir 1:0 sigur á Belgum.
mbl.is