Fagnaði innilega framan í dómarann (myndskeið)

Federico Valverde var skiljanlega súr eftir lokaflautið.
Federico Valverde var skiljanlega súr eftir lokaflautið. AFP/Pablo Porciuncula

Þýski dómarinn Daniel Siebert er ekki vinsæll hjá úrúgvæsku þjóðinni eftir að landsliðið féll úr leik á HM í Katar í dag, þrátt fyrir 2:0-sigur á Gana. Úrúgvæ þurfti eitt mark í viðbót, til að vera með betri markatölu en Suður-Kórea.

Siebert dæmdi umdeilda vítaspyrnu í fyrri hálfleik, sem Úrúgvæjar voru allt annað en sáttir með. Federico Valverde, leikmaður Real Madrid, fagnaði framan í dómarann þegar Sergio Rochet varði vítið frá André Ayew.  

Þá vildu leikmenn Úrúgvæ fá tvær vítaspyrnur í seinni hálfleik, en þá sagði Siebert nei.

Leikmenn Úrúgvæja eltu Þjóðverjann af vellinum í gær og voru með ógnandi tilburði í garð hans. Edinson Cavani og José Giménez fengu báðir gult spjald fyrir mótmæli, eftir að Siebert flautaði leikinn af.

Myndband af Valverde fagna af innlifun framan í dómarann má sjá hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert