Gleymdu örugglega að telja nokkur skot

Dennis Hedström með viðurkenninguna fyrir að vera valinn besti leikmaður …
Dennis Hedström með viðurkenninguna fyrir að vera valinn besti leikmaður Íslands í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sorin Pana

Dennis Hedström átti sennilega einn sinn besta leik í marki Íslands í sögulega 2:0-sigrinum á Rúmeníu á HM í íshokkí sem fram fer þar í landi. Hann var valinn besti leikmaður Íslands í leiknum og var virkilega ánægður með frammistöðuna, en telji þó að hann hafi varið enn fleiri skot en tölfræðin sagði.

„Ég held að þeir sem voru að telja vörðu skotin hafi verið svo mikið inni í leiknum að þeir hafi gleymt að telja nokkur skot,“ sagði Dennis og hló í samtali við mbl.is. Hann fékk skráð á sig 41 varið skot, en honum fannst hann hafa varið enn fleiri.

„Mér fannst það, sérstaklega því þeir voru að pressa svo mikið síðustu mínúturnar. En við héldum kúlinu og sigldum þessu heim. Þetta var frábær liðsheild,“ sagði Dennis, en eins og áður hefur komið fram hafði Ísland aldrei unnið Rúmeníu á þessum vettvangi áður.

„Þetta er besta lið sem við höfum unnið, en þetta kemur eftir mikla vinnu og ekki síst þökk sé ungu strákunum sem hafa staðið sig mjög vel,“ sagði Dennis.

Rúmenskir áhorfendur fjölmenntu á leikinn og höfðu hátt, en hvernig var að spila í svona andrúmslofti?

„Að koma inn í höllina í þessu andrúmslofti gefur manni bara aukna orku. Ef maður var stressaður fyrir leikinn fer það strax og það er virkilega gaman að spila svona leiki. Það eru svona augnablik sem undirstrika það af hverju maður er að spila íshokkí,“ sagði Dennis Hedström við mbl.is.

Dennis Hedström hendir sér fyrir skot í marki Íslands gegn …
Dennis Hedström hendir sér fyrir skot í marki Íslands gegn Rúmeníu í kvöld. Ljósmynd/Sorin Pana
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka