Meistararnir gefa í á toppnum

Íslandsmeistarar Esju eru á toppnum.
Íslandsmeistarar Esju eru á toppnum. mbl.is/Golli

Íslandsmeistarar Esju eru komnir með sjö stiga forskot á toppi Hertz-deildar karla í íshokkíi en liðið vann sigur á SR í kvöld, 4:2.

SR hefur ekki unnið leik í deildinni í vetur en byrjaði leikinn vel og var 2:0 yfir eftir fyrsta leikhluta með mörkum Bjarka Jóhannessonar og Ómars Söndrusonar. Mörk frá Konstantyn Sharapov og Jóni Óskarssyni í öðrum hluta jöfnuðu hins vegar metin fyrir Esju fyrir lokaátökin.

Í þriðja og síðasta leikhluta kom Aron Knútsson Esju yfir og það var svo Jan Semorad sem innsiglaði 4:2-sigur Esju með marki rúmum sjö mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Esja er með 42 stig á toppnum eftir 18 leiki, en SA er í öðru sæti með 35 stig og á hins vegar þrjá leiki til góða og því níu möguleg stig inni. Björninn er svo í þriðja sæti með 25 stig en SR er sem fyrr án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert