Fjölskylda sem ég hitti í tvær vikur á ári

Emanu­el San­f­il­ippo er lengst til hægri. Íslenska landsliðið er alltaf …
Emanu­el San­f­il­ippo er lengst til hægri. Íslenska landsliðið er alltaf í sínu fínasta pússi fyrir leiki. Ljósmynd/Stefán Örn

„Ást mín á þessu liði og strákunum. Ég hef mjög gaman að því að vera með þeim," sagði Emanu­el San­f­il­ippo, sjúkraþjálfari íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í íshokkí, aðspurður hvers vegna hann ákvað að taka slaginn með liðinu, annað árið í röð. 

Emanuel er alltaf kallaður Manny og er vinsæll á meðal leikmanna íslenska liðsins. Hann var í sjúkrat­eymi Phila­delp­hia Flyers í NHL-deild­inni, sterk­ustu íshokkí­deild heims en nú hefur hann verið í íslenska teyminu á tveimur heimsmeistaramótum. 

„Þetta er eins og fjölskylda sem ég hitti í tvær vikur á ári og ég saknaði þeirra. Þetta er mun persónulegra heldur en að vera í kringum lið í sterkustu deild í heimi og maður nær að kynnast leikmönnum betur á meðan það er meira stress og mun meiri peningar í NHL. Þar eru menn tilbúnir að kenna öllum um eftir tapleik."

„Ég reyni að hafa lítið að gera á mótum sem þessum því það er betra fyrir liðið að þurfa aldrei að hitta mig. Ég vil hins vegar hafa smáatriðin á hreinu varðandi leikmenn og þeir vita alltaf hvar ég er. Það er sama hvað þeir þurfa, þeir geta talað við mig."

Hann segist opinn fyrir því að halda áfram að vinna með íslenska landsliðinu, en hann tekur ekki þá ákvörðun aleinn. 

„Það fer eftir því hvað konan mín segir. Að eiga góða konu sem styður mann er mjög mikilvægt og konan mín hefur leyft mér að upplifa hluti sem þessa. Stundum er ég í burtu í heilan mánuð, en ég mun taka ákvörðum í samræmi við konuna mína á næsta ári, kannski verð ég áfram með liðinu," sagði Manny. 

Manny sagði í samtali við mbl.is í Rúmeníu í fyrra að hann hafi aldrei komið til Íslands, né farið á skauta. Aðspurður hvort annað hvort hafi breyst á einu ári, skellihló hann og svaraði neitandi. 

Emanu­el San­f­il­ippo
Emanu­el San­f­il­ippo mbl.is/Jóhann Ingi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert