Ætlum okkur beinustu leið upp aftur

Jussi Sipponen á hliðarlínunni.
Jussi Sipponen á hliðarlínunni. Ljósmynd/Stefán Örn

„Við gerðum of mörg mistök og við náðum ekki að skora þegar við þurftum þess," sagði Jussi Sipponen, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í íshokkí, sem tapaði öllum fimm leikjum sínum á heimsmeistaramótinu í Tilburg, Hollandi og féll í leiðinni úr A-riðli niður í B-riðil 2 deildarinnar. 

„Við áttum fín augnablik inn á milli og sérstaklega í leiknum við Kína. Þar fengum við fullt af færum sem við nýttum ekki en svona virka íþróttir, ef þú skorar ekki, þá er þér refsað. Leikurinn í dag var ekkert sérstakur, en það er skiljanlegt því það var ekkert undir.

Við vorum ekki nógu góðir þegar við vorum manni fleiri á þessu móti og ég tek það svolítið mikið á mig. Það var mitt hlutverk í þjálfarateyminu að vinna í því og það gekk alls ekki. Við lærum af þessu."

Hann segir markmiðið á næsta ári afar einfalt. 

„Á næsta ári ætlum við okkur ekkert annað en að fara beinustu leið upp aftur, það er það eina sem við hugsum um núna," sagði Jussi Sipponen. 

mbl.is