Ísland fer stigalaust frá Tilburg

Elvar Snær Ólafsson í leiknum í kvöld. Hann jafnaði í ...
Elvar Snær Ólafsson í leiknum í kvöld. Hann jafnaði í 1:1. Ljósmynd/Stefán Örn

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí fer stigalaust frá A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins eftir 5:2-tap á móti Serbíu í fimmta leik sínum mótinu sem leikið er í Tilburg, Hollandi.

Íslenska liðið lék vel í 1. leikhlutanum og var staðan eftir hann 1:1. Ísland byrjaði betur og fékk fín færi, en það voru Serbar sem skoruðu fyrsta markið. Það gerði Marko Brkusanin eftir þunga pressu er Ísland var manni færri vegna brottvísunar sem Aron Knútsson fékk. Íslenska liðið var hins vegar fljótt að jafna þegar jafnt var í liðum. Elvar Snær Ólafsson skoraði einn gegn markmanni aðeins mínútu síðar eftir sendingu Edmunds Induss. Þrátt fyrir fína spilamennsku íslenska liðsins voru ekki fleiri mörk skoruð í leikhlutanum.

Jafnræði var með liðunum í upphafi 2. leikhluta og skiptust þau á að fá færi. Á 32. mínútu fengu Andri Már Mikaelsson og Luka Vukievic báðir brottvísanir fyrir smá handalögmál og það virtist henta Serbunum vel að spila fjórir á fjóra því örskömmu síðar kom Petar Novakovic Serbum aftur yfir. Serbar héldu svo áfram að pressa og þriðja markið kom á 39. mínútu. Það skoraði Marko Sretovic og enn og aftur voru íslenskir leikmenn í skammarkróknum er makið kom. Andri Már Mikaelsson komst einn í gegnum hinum megin rétt á undan, en hann náði ekki að skora og Serbar voru fljótir að refsa. Staðan fyrir síðasta leikhlutann var því 3:1, Serbum í vil.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af í 3. leikhluta og var minna um færi en í hinum leikhlutunum. Aleksa Lukovic skoraði hins vegar fjórða mark Serba, níu mínútum fyrir leikslok er hann kom pökknum framhjá varnarmönnum Íslands og Dennis sá hann of seint. Dominik Crnogorac skoraði svo fimmta markið á 56. mínútu, en Ísland átti síðasta orðið því Bjarki Reyr Jóhannesson hamraði pökknum í netið rétt fyrir leikslok og þar við sat. 

Ísland 2:5 Serbía opna loka
61. mín. Ingvar Þór Jónsson (Ísland) Textalýsing Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson er valinn besti leikmaður Íslands í leiknum.
mbl.is