Haukar bikarmeistarar í körfuknattleik kvenna

Thelma B. Fjalarsdóttir Haukum og Svava Ósk STefánsdóttir Keflavík í ...
Thelma B. Fjalarsdóttir Haukum og Svava Ósk STefánsdóttir Keflavík í baráttunni í Höllinni í dag. mbl.is/Golli

Haukar og Keflavík áttust við í úrslitaleiknum í Subwaybikarkeppni kvenna í körfuknattleik í Laugardalshöll klukkan 14:00. Haukar unnu nokkuð óvæntan en verðskuldaðan sigur 83:77 eftir að hafa verið einu stigi yfir í hálfleik 46:45. Haukakonur voru leiddar áfram af hinni bandarísku Heather Ezell sem náði þrefaldri tvennu, skoraði 25 stig, tók 15 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stigahæstar: 

Haukar: Heather Ezell 25, María Sigurðardóttir 20, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 11.

Keflavík: Birna Valgarðsdóttir 22, Kristi Smith 20, Bryndís Guðmundsdóttir 19.

40. mín: LEIK LOKIÐ. Haukar sigrað 83:77 og tryggja sér bikarmeistaratitilinn.

39. mín: Staðan er 82:73 fyrir Hauka. Mikið þarf að ganga á á síðustu mínútunni til þess að Keflavík geti kreist fram framlengingu.

38. mín: Staðan er 80:69 fyrir Hauka og Íslandsmeistararnir virðast vera að landa bikarmeistaratitlinum.  Varamaðurinn María Sigurðardóttir hefur skorað 20 stig fyrir Hauka og hefur rekið smiðshöggið á frábæran leik með mikilvægum körfum í síðasta leiklutanum.

35. mín: Staðan er 74:67 fyrir Hauka. Keflavík minnkaði muninn niður í 69:67 en þá skoraði Ezell glæsilega þriggja stiga körfu fyrir Hauka.  Það er hins vegar nóg eftir af leiknum fyrir Keflavíkurkonur sem eru ekki búnar að gefast upp.

32. mín: Staðan er 69:63 fyrir Hauka og Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur tekur leikhlé. Honum er nóg boðið enda var Thelma að skora eftir að hafa tekið enn eitt sóknarfrákastið.

31. mín: Staðan er 64:60 fyrir Hauka. Svava var að fá sína 5. villu og kemur ekki meira við sögu hjá Keflavík.  Haukarnir eru að hirða öll fráköst og það gæti reynst mikilvægt þegar uppi verður staðið.

30. mín: Staðan er 62:60 fyrir Hauka fyrir síðasta leikhlutann. Lokamínútur þessa leiks verða án efa æsispennandi. Svava Ósk Stefánsdóttir Keflavík er eini leikmaðurinn með 4 villur en nokkrir eru með 3 villur. Birna Valgarðsdóttir er stigahæst hjá Keflavík með 20 stig en Heather Ezell er með 17 hjá Haukum.  

27. mín: Staðan er 56:53 fyrir Hauka. María Lind Sigurðardóttir hefur komið með gríðarlegt framlag af varamannabekknum hjá Haukum. Hún er búin að skora 14 stig og tekið 6 fráköst. Sjálfstraustið er í botni hjá henni og svona tölur hjá varamanni eru gulls ígildi í bikarúrslitaleik. 

24. mín: Staðan er 51:48 fyrir Hauka. Frumkvæðið er Haukana eins og er en munurinn á liðunum er lítill sem enginn og hefur aldrei verið meiri en fjögur stig í leiknum. 

20. mín: Staðan er 46:45 fyrir Hauka að loknum fyrri hálfleik. Skemmtilegum fyrri hálfleik því lokið og útlit fyrir æsispennandi leik í síðari hálfleik. Liðin skiptust á að vera með forystuna á síðustu mínútum fyrri hálfleiks.  Heather Ezell er stigahæst hjá Haukum með 13 stig en Birna Guðmundsdóttir hefur skorað 15 stig fyrir Keflavík.

18. mín: Staðan er 39:37 fyrir Hauka. Hafnfirðingum hefur tekist að snúa blaðinu við og hafa tekið forystuna. Þær mega þó hafa áhyggjur af villusöfnun sinna leikmanna því Ragna Margrét er einnig komin með 3 villur og Ezell er búin að vera tæp á þriðju villunni en hún er með 2. 

14. mín: Staðan er 33:29 fyrir Keflavík. Bryndís Guðmundsdóttir var að skora þriggja stiga körfu og Henning Henningsson þjálfari Hauka tekur leikhlé. Thelma B. Fjalarsdóttir hjá Haukum og Svava Ósk Stefánsdóttir hjá Keflavík eru báðar komnar með 3 villur.

10. mín. Staðan er 20:19 fyrir Keflavík að loknum fyrsta leikhluta. Suðurnesjakonur hafa verið með frumkvæðið hingað til og hafa verið á undan að skora. Pálína Gunnlaugsdóttir missteig sig en virðist ekki mjög kvalinn. Hún fór þó út af og Björg Hafsteinsdóttir gamli leikstjórnandinn hjá Keflavík „teipaði“ ökklann á Pálínu. Ragna Margrét fékk snemma 2 villur hjá Haukum og þarf að gæta sín. 

5. mín: Staðan er 13:13. Keflavík komst yfir 11:7 og 13:10 en Heather Ezell svaraði því með tveimur þriggja stiga körfum og hefur þessi ótrúlegi leikmaður skorað þrjár slíkar á fyrstu 5 mínútunum.

2. mín: Staðan er 5:4 fyrir Hauka. Byrjunarlið Hauka: Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Thelma B. Fjalarsdóttir, Guðrún Ámundadóttir, Heather Ezell og Kiki Lund. Byrjunarlið Keflavíkur: Bryndís Guðmundsdóttir, Birna Valgarðsdóttir, Heiðrún Hauksdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir, Kristi Smith.

Davíð Hreiðarsson og Sigmundur Már Herbertsson munu annast dómgæsluna í leiknum. Pétur Hrafn Sigurðsson er eftirlitsdómari.

Einhverjar tafir hafa orðið á því að hefja leik enda var mikil og ítarlega kynning á leikmönnum liðanna. Auk þess heilsuðu heiðursgestir upp á leikmenn áður en þjóðsöngur Íslands var fluttur. Heiðursgestir eru bæjarstjórarnir í Hafnarfirði og Reykjanesbæ, Lúðvík Geirsson og Árni Sigfússon ásamt Stefáni Emil Jóhannssyni frá Subway á Íslandi.

Heather Ezell hefur farið á kostum hjá Haukum í vetur.
Heather Ezell hefur farið á kostum hjá Haukum í vetur. mbl.is/Ómar
mbl.is