Martin einn albesti útlendingurinn

Martin Hermannsson hefur bætt rós í hnappagatið.
Martin Hermannsson hefur bætt rós í hnappagatið. mbl.is/Eggert

Martin Hermannsson er einn af albestu erlendu leikmönnunum í bandaríska háskólakörfuboltanum að mati vefmiðilsins vinsæla Bleacher Report.

Um mikinn heiður er að ræða fyrir Martin sem er einn fimm Íslendinga sem leika í sterkustu deild háskólakörfuboltans. Hann var valinn sem fyrsti varamaður í úrvalsliði sem BR setti saman, en liðið skipa annars þeir Federico Mussini (Ítalíu), Jarelle Reischel (Þýskalandi), Egor Koulechov (Rússlandi), Domantas Sabonis (Litháen) og Jakob Pöltl (Austurríki).

Martin leikur með LIU Brooklyn og er næststigahæstur og með næstflestar stoðsendingar í liðinu í vetur. Hann hefur að meðaltali skorað 14,6 stig og átt 4,2 stoðsendingar. Í rökstuðningi BR fyrir valinu er einnig tekið fram að Martin hafi í vetur nýtt 40% þriggja stiga skota sinna, eftir að hafa nýtt 27,5% þeirra á sínu fyrsta ári með liðinu.Vítanýtingin hans er sú næstbesta í norðaustur-riðlinum, en Martin hefur nýtt 88,1% vítaskota sinna.

mbl.is