Veit að þetta er stór stund fyrir þær

Nashika Williams var létt í bragði á fjölmiðlafundi á Kex …
Nashika Williams var létt í bragði á fjölmiðlafundi á Kex Hostel fyrir undanúrslitin. mbl.is/Sindri

Hin bandaríska Nashika Williams hefur komið sem ferskur blær inn í lið Hauka og ætli það sér að komast í úrslitaleik Maltbikarsins í körfubolta í dag, með því að sigra Keflavík í Laugardalshöll kl. 17, er ljóst að Williams, eða „Breezy“ eins og hún er kölluð, þarf að eiga góðan leik.

Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í Dominos-deildinni í vetur og alltaf hefur Keflavík unnið. Síðasti leikur var hins vegar spennandi og Keflavík vann með aðeins þremur stigum, 68:65.

„Í síðasta leik gegn þeim töpuðum við með örfáum stigum. Við þurfum að fækka þeim skiptum þar sem við missum boltann til þeirra í sókninni og þá mun þetta verða jafn og góður leikur. Við þurfum að hægja á hraðaupphlaupunum þeirra, því þær vilja gjarnan fara hratt fram og til baka. Við verðum að spila okkar leik en ekki láta þær ráða ferðinni,“ sagði Breezy við mbl.is. Hún kom til Hauka um áramót og hefur aðeins náð að leika fimm leiki með liðinu:

„Mér finnst liðið hafa verið að eflast í síðustu leikjum og þegar ég beið eftir leyfi til að spila fannst mér liðið líka standa sig vel. Ég veit að þetta er stór stund fyrir stelpurnar [í Haukaliðinu], og þetta er líka fyrsta bikarúrslitavikan mín hérna á Íslandi, en ég er enn ánægðari fyrir þeirra hönd. Ég vil gjarnan vinna fyrir þær og fyrir félagið,“ sagði Breezy.

„Ég hef reynt að sjá hvar eru mest not fyrir mig, í stað þess að mæta bara og reyna að taka yfir allt. Ég læri sífellt betur á samherja mína og reyni að nota það sem ég hef lært, frá því að ég byrjaði fjögurra ára gömul í körfubolta, og miðla því áfram. Þær eru ungar og ég þarf að sinna þessu hlutverki,“ sagði sú bandaríska.

Leikur Keflavíkur og Hauka hefst kl. 17 en Skallagrímur og Snæfell mætast svo kl. 20 í seinni undanúrslitaleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert