Eitthvað sem maður á ekki að láta framhjá sér fara

Emil Karel Einarsson og félagar í Þór eru komnir aftur …
Emil Karel Einarsson og félagar í Þór eru komnir aftur í Laugardalshöll. mbl.is/Golli

„Þetta verður hörkuleikur, það er alveg staðfest,“ segir Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs Þorlákshafnar, en liðið mætir Grindavík í Laugardalshöll í kvöld í undanúrslitum Maltbikarsins í körfubolta.

Leikur Þórs og Grindavíkur hefst kl. 20 en þremur tímum fyrr, eða kl. 17, mætast Valur og KR í hinum undanúrslitaleiknum. Þór komst í fyrsta sinn í bikarúrslitaleikinn í fyrra en tapaði þar fyrir KR. Grindvíkingar eru mun vanari því að heimsækja Höllina og urðu síðast bikarmeistarar árið 2014.

„Ég sé fyrir mér tvö lið sem eru virkilega hungruð í að komast í úrslit. Við komumst þangað í fyrra og vitum hvernig þetta er, stemningin í kringum þennan stærsta leik ársins er ótrúleg, og þessi úrslitaleikur er eitthvað sem við viljum svo mikið komast aftur í. Við spiluðum fyrir framan uppselda Laugardalshöll í fyrra og það er eitthvað sem maður á ekki að láta fram hjá sér fara,“ segir Emil Karel, og hann tekur undir að það gæti reynst mikilvægt að hafa farið í úrslitaleikinn í fyrra:

Emil Karel Einarsson og félagar unnu KR í leiknum um …
Emil Karel Einarsson og félagar unnu KR í leiknum um meistarabikarinn við upphaf leiktíðar í haust. mbl.is/Eggert

„Það ætti að hjálpa. Auðvitað var þetta allt frekar nýtt fyrir okkur í fyrra og menn kannski svolítið stressaðir. Allir svona leikir hjálpa upp á reynsluna að gera. Við erum að miklu leyti með sama lið og það eru því margir með meiri reynslu í ár.“ En hvað er mikilvægast til að vinna Grindvíkinga?

„Við þurfum að vinna frákastabaráttuna. Það er lykillinn fyrir okkur í flestum leikjum, því við erum með frekar lágvaxna leikmenn. Við þurfum að spila fantavörn og passa að þeirra lykilmenn komist ekki í ham. Óli Óla er svona stemningskall sem getur kveikt vel í þeim og Lalli [Þorleifur Ólafsson] er með mikla reynslu. Við vitum að þeir munu koma agressívir í leikinn og reyna að gera mikið fyrir þá, og það er eitthvað sem við þurfum að varast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert