Curry henti munnstykki í átt að dómara í tapi

Durant og Curry voru reknir út úr húsi í nótt.
Durant og Curry voru reknir út úr húsi í nótt. AFP

Tímabilið byrjar ekki sem skyldi hjá NBA-meisturunum í Golden State Warriors. Liðið tapaði í nótt fyrir Memphis Grizzlies, 111:101 á útivelli, og hefur tapað tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum á nýhöfnu tímabili.

Heimamenn í Memphis voru með undirtökin allan tímann og voru með fimm stiga forystu að loknum fyrri hálfleik, 56:51. Liðið vann þriðja leikhluta með tólf stiga mun og lagði þar grunninn að nokkuð öruggum sigri.

Stjörnuleikmennirnir Stephen Curry og Kevin Durant voru reknir út úr húsi á lokamínútunni. Curry var óánægður með dómara leiksins og henti munnstykki í átt að þeim. Durant var í framhaldinu einnig rekinn út úr húsi fyrir mótmæli. Mar Gasol var stigahæstur hjá Memphis með 36 stig en Curry skoraði 37 fyrir Golden State.

LeBron James og félagar hans í Cleveland Cavaliers töpuðu einnig öðrum leik sínum en Cleveland tapaði á heimavelli fyrir Orlando Magic, 114:93. James var stigahæstur heimamanna með 22 stig en Nikola Vucevic skoraði 23 fyrir Orlando.

Öll úrslit næturinnar:

Philadelphia 76ers - Toronto Raptors 94:128
Cleveland Cavaliers - Orlando Magic 93:114
Miami Heat - Indiana Pacers 112:108
New York Knicks Detroit Pistons 107:111
Chicago Bulls - San Antonio Spurs 77:87
Houston Rockets - Dallas Mavericks 107:91
Memhpis Grizzlies - Golden State Warriors 111:101
Milwaukee Bucks - Portland Trailblazers 113:110
Utah Jazz - Oklahoma City Thunder 96:87
Los Angeles Clippers - Phoniex Suns 130:88

mbl.is