Þetta er gríðarlega svekkjandi

Benedikt Blöndal var svekktur í leikslok.
Benedikt Blöndal var svekktur í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er gríðarlega svekkjandi, við erum búnir að eiga nokkra svona leiki þar sem við erum búnir að vera með forystu en missum það niður í lokin og náum ekki að klára leikina. Það er aftur að stríða okkur hér,“ sagði Benedikt Blöndal, leikmaður Vals, eftir grátlegt 90:89-tap gegn Grindavík í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

Valsmenn voru yfir stóran hluta leiks og allt þar til í blálokin. 

„Við vorum ekki nógu ákveðnir eða sterkir með boltann í lokin og þeir fengu auðveld hraðaupphlaup, sem þeir voru ekki búnir að gera allan leikinn. Þá náðu þeir áhlaupi og fengu sniðskot og opin þriggja stiga skot sem er það besta sem þú getur fengið í körfubolta.“

Valsmenn voru með boltann þegar um fimm sekúndur voru eftir og Valsmenn stigi yfir. Austin Magnus Bracey missti hins vegar knöttinn og Grindavík skoraði hinum megin. 

„Hann fær sendinguna en nær ekki að grípa hann nógu vel. Auðvitað er fúlt að missa boltann, við vorum á leiðinni í tvö vítaskot með bestu vítaskyttuna okkar.“

„Við erum búnir að vera í mörgum hörkuleikjum í vetur. Við þurfum að byggja ofan á því og finna leið til að klára þessa jöfnu leiki. Ef við værum að taka þá værum við enn ofar í töflunni,“ sagði Benedikt að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert