Spánverjar leika aftur til úrslita

Anna Cruz skoraði 14 stig fyrir Spánverja.
Anna Cruz skoraði 14 stig fyrir Spánverja. Ljósmynd/FIBA

Ríkjandi meistarar Spánverja leika til úrslita á Evrópumóti kvenna í körfubolta. Spánn hafði betur gegn Serbíu í Belgrad í undanúrslitum í kvöld, 71:66. 

Spánverjar voru sterkari framan af og var staðan 37:30 í hálfleik. Heimakonur í Serbíu neituðu hins vegar að gefast upp og tókst að minnka muninn í fjórða leikhluta. Serbía komst svo yfir þegar skammt var eftir, 66:64. 

Þá fór hins vegar allt í lás og Spánn skoraði sjö síðustu stigin, öll á vítalínunni og tryggði sér úrslitaleik gegn Frökkum sem höfðu betur gegn Bretlandi fyrr í dag. 

Astou Ndour var stigahæst hjá Spáni með 17 stig og Anna Cruz gerði 14 stig. Jelena Brooks skoraði 17 stig fyrir Serbíu og Dajana Butulija og Dragana Stankovic skoruðu 12 stig hvor. 

mbl.is