Sonur gömlu stjörnunnar fór á kostum

Domantas Sabonis átti frábæran leik með Indiana Pacers í nótt.
Domantas Sabonis átti frábæran leik með Indiana Pacers í nótt. AFP

Litháinn Domantas Sabonis var í lykilhlutverki hjá Indiana Pacers í nótt þegar liðið  gerði góða ferð til Colorado og vann þar sigur á Denver Nuggets, 115:107, í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Sabonis, sem er 23 ára gamall sonur Arvydas Sabonis, stjörnu Litháa sem á sínum tíma lék með Portland Trail Blazers, náði þrefaldri tvennu í nótt en hann var með 22 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar fyrir Indiana sem hefur þar með unnið 28 af 43 leikjum sínum í vetur og er í fimmta sæti Austurdeildar NBA, á eftir Milwaukee, Miami, Toronto og Boston.

Denver er í þriðja sæti Vesturdeildarinnar með 29 sigra í 42 leikjum, á eftir Los Angeles-liðunum Lakers og Clippers sem eru í tveimur efstu sætunum.

Aðeins tveir leikir fóru fram í deildinni í nótt og í hinni viðureigninni vann San Antonio Spurs heimasigur á Miami Heat, 107:102. DeMar DeRozan skoraði 20 stig fyrir San Antonio, tók 9 fráköst og átti 9 stoðsendingar. Bam Badbayo var með 21 stig og 16 fráköst fyrir Miami.

mbl.is