Martin þýskur meistari eftir stórleik

Martin Hermannsson er þýskur meistari með Alba Berlín.
Martin Hermannsson er þýskur meistari með Alba Berlín. Ljósmynd/@albaberlin

Martin Hermannsson átti stórleik er hann og liðsfélagar hans í Alba Berlín tryggðu sér þýska meistaratitilinn í körfubolta með 75:74-sigri á Ludwigsburg í dag. Alba vann fyrri leikinn 88:65 og einvígið því afar sannfærandi. 

Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði 14 stig og var stigahæstur í liði Alba. Þá tók hann einnig fimm fráköst og gaf þrjár stoðsendingar, en Martin hefur verið einn allra besti leikmaður Alba á tímabilinu. Varð liðið einnig bikarmeistari á dögunum. 

Alba hefur farið á kostum síðan deildin fór af stað á ný eftir kórónufrí og unnið alla tíu leiki sína, flesta þeirra mjög sannfærandi. Titillinn er sá fyrsti hjá Alba Berlin síðan árið 2008. 

mbl.is