Góð úrslit fyrir Ísland

Lúxemborg gerði Íslandi greiða.
Lúxemborg gerði Íslandi greiða. Ljósmynd/FIBA

Lúxemborg hafði betur gegn Slóvakíu í síðari leik dagsins í forkeppni HM karla í körfubolta í Bratislava í dag. Eru úrslitin afar góð fyrir íslenska liðið, sem heldur toppsætinu eftir sigurinn á Kósovó í dag.

Thomas Grün var stigahæstur hjá Lúxemborg með 17 stig og Alex Laurent bætti við 13 stigum. Mário Ihring skoraði 22 fyrir Slóvakíu og Vladimír Brodziansky skoraði 20.

Þegar tvær umferðir eru eftir af riðlinum er Ísland í toppsætinu með 7 stig, einu stigi meira en Slóvakía og Kósovó. Lúxemborg rekur lestina með fimm stig, en eitt stig fæst fyrir tap og tvö fyrir sigur.

Ísland á eftir leiki gegn Slóvakíu og Lúxemborg og verða þeir leiknir 18. og 21. febrúar.

mbl.is