Gaman að vinna félaga sína

KR-ingarnir Björn Kristjánsson og Brynjar Þór Björnsson verjast Valsmönnum í …
KR-ingarnir Björn Kristjánsson og Brynjar Þór Björnsson verjast Valsmönnum í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er gríðarlega ánægður og það er gaman að fá fyrsta sigurleikinn. Við erum búnir að bíða aðeins eftir því. Við töpuðum í október og svo var löng bið síðan þá, svo kom aftur tapleikur þannig að það er mjög ljúft að ná í fyrsta sigurleikinn og geta byggt ofan á það.“

Þetta sagði Jakob Örn Sigurðarson, leikmaður KR í körfuknattleik, í samtali við mbl.is eftir 80:71 sigur liðsins gegn Val í Dominos-deildinni í kvöld.

Fjöldi fyrrverandi leikmanna KR eru nú liðsmenn Vals, auk þess sem þjálfari Vals, Finnur Stefánsson, leiddi KR-inga til fimm Íslandsmeistaratitla í röð. Jakob viðurkenndi að það væri sætt að vinna gamla félaga.

„Jú auðvitað er gaman að vinna félaga sína sem maður hefur spilað með lengi, bæði með KR og  landsliðinu. Það var rosa gaman og ljúft en á sama tíma var þetta bara einn leikur og það er annar leikur á fimmtudaginn þannig að við þurfum svolítið að halda áfram og halda haus.“

Jakob var ánægður með spilamennsku KR-inga í leiknum. „Okkur fannst leikurinn spilast frekar vel. Mér fannst við byrja af miklum krafti, ná upp góðum hraða í leiknum eins og við viljum spila, sérstaklega í fyrsta leikhluta.“

Góður varnarleikur undir lok leiks gerði svo að lokum gæfumuninn að hans mati. „Mér fannst við komast á svolítið gott skrið í þriðja leikhluta og náðum að fá góð stopp í vörninni þegar við þurftum á því að halda og ná þessum fráköstum sem eru rosalega mikilvæg fyrir okkur, sérstaklega núna þar sem við erum minni en önnur lið. Svo var ég mjög ánægður með baráttuna hjá okkur, við vorum að berjast fyrir þessum lausu boltum þegar þeir komu þarna í lokin,“ sagði Jakob að lokum í samtali við mbl.is.

Jakob Örn Sigurðarson í leik með KR á síðasta tímabili.
Jakob Örn Sigurðarson í leik með KR á síðasta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert